Innlent

Vísar ásökunum á bug

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Svavar Halldórsson sambýlismaður Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðenda segir að fyrrverandi eiginkona sín reyni gegn betri vitund að láta líta svo út að hann hafi framið ofbeldisverk.

Kristjana Óskarsdóttir fyrrverandi eiginkona Svavars ræddi í fyrradag við blaðamanninn Eirík Jónsson á vefsíðu hans, eiríkurjonsson.is. Þar sagði hún meðal annars að Svavar hefði ofbeldisfulla fortíð. Kristjana segir að Svavar hafi ráðist á ömmu sína árið 2002. Að sögn Kristjönu fékk Svavar ekki dóm fyrir það, en að hann hafi verið kærður og að hann hafi viðurkennt verknaðinn.

„Þetta tilvik sem barnsmóðir mín vísar til í viðtalinu hjá Eiríki Jónssyni var erfið stund," segir Svavar. „Ungar dætur okkur þurftu að vera vitni að þessu og þetta var hluti af erfiðum sambandsslitum."

„Ég var að sækja dætur mínar til ömmu barnsmóður minnar eins og ég átti rétt á að gera. Þar sem ég geng út, haldandi á yngstu dóttur minni og með hinar tvær með mér, þá reyndi hún að varna mér útgöngu. Ég færði til handlegg hennar svo að ég kæmist út og af því segist hún hafa fengið marblett," segir Svavar.

Svavar segir að enginn hafi verið kærður eins og Kristjana heldur fram.

„Þetta tilvik hefur barnsmóðir mín gegn betri vitund reynt að láta líta út eins og ofbeldisverk.

Svavar segist ávallt hafa haft hag og velferð barna þeirra í fyrirrúmi og gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að láta ekki erfið sambandsslit lita tilveru barnanna.

„Það hefur verið aðalatriði í mínum huga og verður það áfram að," segir Svavar að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×