Innlent

Hannes forsetaframbjóðandi: Þetta lítur ljómandi vel út

Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi er nú að safna síðustu undirskriftunum fyrir framboð sitt. Skila á undirskriftum fyrir höfuðborgarsvæðið á morgun. Hannes segist í samtali við fréttastofu að margir séu tilbúnir að gefa honum meðmæli en það sé að sjálfsögðu erfiðara fyrir sig en aðra frambjóðendur þar sem hann er ekki eins þekktur.

Hann segist hvergi banginn og reiknar með að ná lágmarksfjölda undirskrifta og vera með í kosningunum í lok júní. „Við erum með svolítið öðruvísi hugmyndafræði í kringum þetta. Þetta lítur ljómandi vel út og ég geri ráð fyrir að við verðum áfram í pottinum."

Hann hefur ekki mælst með mikið fylgi í skoðanakönnunum og aðspurður hvort að hann eigi eftir að bæta við sig þegar líður á, segir hann:

„Hvernig á fólk að segjast ætla að kjósa mig þegar það veit ekki fyrir hverju ég stend? Ég þarf að komast að í fjölmiðlum og fá að sýna andlitið. Ef þú lokar augunum og ég segi við þig Þóra. Þá færðu mynd af Þóru í huganum um leið. Ef ég segi Ólafur, þá færðu mynd af Ólafi um leið. Sömu sögu er að segja með Ara Trausta. Og þegar ég segi Hannes þá kemur enginn upp og fólk spyr; hver er þetta?"

Hann ætlar að safna undirskriftum áfram í dag í góða veðrinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×