Innlent

Átján ára ökumaður ákærður fyrir manndráp af gáleysi

Erla Hlynsdóttir skrifar
Átján ára piltur hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Farþegi í bíl hans, Eyþór Darri Róbertsson, lést eftir alvarlegan árekstur. Pilturinn var próflaus þegar slysið varð.

Eyþór Darri lést í ágúst á síðasta ári, sautján ára gamall, eftir að bíll sem hann var farþegi í var ekið á húsvegg á mótum Geirsgötu og Mýrargötu.

Vitni stigu fram eftir áreksturinn og sögðu ökumanninn hafa verið í spyrnukeppni á ofsahraða.

Móðir Eyþórs Darra, Lilja Huld Steinþórsdóttir, sagði í ítarlegu viðtali í síðasta mánuði, að rannsóknargögn málsins hefðu verið send til ríkissaksóknara. Þá sagði hún að lögregluskýrsla um slysið hafið verið um 200 blaðsíður, og þar af 20 blaðsíður aðeins um hraða bílsins.

Ákæra ríkissaksóknara gegn piltinum verður þingfest í næstu viku í Héraðsdómi Reykjavíkur. Auk manndráps af gáleysi er hann ákærður fyrir ýmis umferðarlagabrot. Við þingfestinguna þarf hann að lýsa yfir sekt eða sakleysi.

Pilturinn vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa náði tali af honum í dag.

Lilja Huld sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hún hafi alltaf reiknað með því að gefin yrði út ákæra, en baðst annars undan viðtali.



Sjá ítarlegt viðtal við Lilju Huld sem birtist í Íslandi í dag þann 24. apríl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×