Innlent

Ólafur og Þóra jöfn samkvæmt nýrri könnun MMR

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nákvæmlega sami fjöldi myndi kjósa Þóru Arnórsdóttur og Ólaf Ragnar Grímsson í forsetakosningum, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar MMR sem gerð var dagana 21-24 maí.

Af þeim sem tóku afstöðu var nákvæmlega sami fjöldi, eða 41,2%, sem sögðust myndu kjósa Þóru Arnórsdóttur og Ólaf Ragnar Grímsson. Þá voru 9,7% þeirra sem tóku afstöðu sem lýstu yfir stuðningi við Ara Trausta Guðmundsson. Aðrir frambjóðendur voru nefndir af 7,9% svarenda samanlagt. Einungis var kannaður stuðningur almennings við þá einstaklinga sem þegar hafa lýst yfir framboði til komandi forsetakosninga.

Sem fyrr reyndist töluverður munur á afstöðu fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokka það sagðist styðja (væri gengið til kosninga nú). Þannig voru 52,5% framsóknarmanna og 58,7% sjálfstæðismanna sem sögðust kjósa Ólaf Ragnar en 71,0% samfylkingarfólks og 69,6% Vinstri-grænna sagðist vilja kjósa Þóru. Þá voru 63,3% þeirra sem sögðust styðja ríkisstjórnina sem jafnframt sögðust kjósa Þóru. Á móti voru 53,3% þeirra sem sögðust andvígir ríkisstjórninni sem sögðust vilja kjósa Ólaf Ragnar.

Niðurstöður könnunarinnar eru mjög ólíkar könnun sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í morgun. Samkvæmt þeirri könnun sögðust 53,9 prósent aðspurðra kjósa Ólaf Ragnar en 35,4% sögðust kjósa Þóru.

Um aðferðarfræði könnunar MMR:

Úrtak: Einstaklingar á aldrinum 18-67 ára (og 68-80 ára) valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR

Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR

Svarfjöldi: 856 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára (933 ef horft er til 18-80 ára)

Dagsetning framkvæmdar: 21.-24. maí 2012



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×