Innlent

Starfsfólk RÚV mun sjá um kosningaumfjöllunina

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Páll Magnússon útvarpsstjóri.

Ekki kemur til greina að fá utanaðkomandi aðila til að stýra kosningaumfjöllun Ríkisútvarpsins líkt og einn forsetaframbjóðendanna hefur farið fram á. Útvarpsstjóri segist hafa fullan skilning á áhyggjum forsetaframbjóðenda en ekki sé hægt að breyta sögunni.

Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi lýsti því yfir í fréttum okkar í gær að hún vilji að utanaðkomandi aðilar verði fengnir til að stýra kosningaumfjöllum Ríkisútvarpsins svo hægt verði að tryggja að hún verði hlutlaus. Þá telur Herdís að Þóra Arnórsdóttir hafi forskot á aðra frambjóðendur þar sem hún hefur starfað á hjá Ríkisútvarpinu um árabil.

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir að öllum frambjóðendum verði tryggð jöfn kynning. ,,Ég hef fullan skilning á því að frambjóðendur áhyggjur af því með hvaða hætti þetta verður gert. Við munum að sjálfsögðu tryggja öllum frambjóðendum jafna aðkomu að öllum þeim þáttum og þeirri umfjöllun sem við verðum með á RÚV í aðdraganda þessara kosninga. Við getum hins vegar ekki breytt sögunni. Við getum ekki breytt því að einn frambjóðandinn er starfsmaður RÚV. Annar frambjóðandi er sitjandi forseti. Enn annar gæti verið betur efnum búinn eða átt ríkari maka en hinn. Af þessu öllu getur skapast mismunandi aðstaða en þann aðstöðumun getur RÚV ekki jafnað", segir Páll Magnússon. Þá segir Páll að ekki komi til greina að fá utanaðkomandi aðila til að stýra kosningaumfjöllun Ríkisútvarpsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.