Innlent

ESB blandar sér ekki í málefni iðnaðarráðuneytis

Oddný Harðardóttir settur iðnaðarráðherra segir að hvorki sendiherra ESB, né nokkur annar á vegum sambandsins, hafi blandað sér í málefni ráðuneytisins. Þetta er svar ráðherra við fyrirspurn sem Ásmundur Einar Daðason þingmaður Framsóknarflokksins lagði fram á Alþingi. Ásmundur vildi fá að heyra skoðun ráðherrans á því að „ESB, með fjármunum og þáttöku sendiherra og sendiráðs", hefði blandað sér með beinum hætti í umræður um áhrif ESB-aðildar á þá málaflokka sem undir ráðuneytið heyri.

Ráðherrann segir að einu samskiptin við sendiráð ESB séu fundir sem haldnir eru tvisvar á ári með fulltrúum sendiráðsins til að ræða framvindu við þá kafla sem tengjast aðildarumsókninni og ráðuneytið ber ábyrgð á. „Þetta eru kaflar 15 um orkumál og 20 um iðnað og nýsköpun. Þá tekur ráðuneytið virkan þátt í vinnu við kafla 22 um byggðamálefni sem utanríkisráðuneyti er í forustu fyrir. Iðnaðarráðuneytið hefur með þátttöku sinni kynnst löggjöf ESB í þessum málaflokkum sem styrkt hefur faglegan grundvöll þess - til að takast á við dagleg störf, einkum sem tengjast tæknilegum atriðum við stefnumótun og áætlanagerð."

Ásmundur Einar spurði einnig hvernig ráðherra hyggist „tryggja að starfsemi Evrópustofu og þeir fjármunir sem ESB ver til hennar, ásamt beinni þátttöku sendiherra og sendiráðs ESB, skekki ekki lýðræðislega umræðu um þá málaflokka sem heyra undir ráðuneytið."

Þessu svaraði ráðuneytið á þann veg að það taki ekki þátt í pólitískri umræðu um ESB. „Það er mat ráðuneytisins að hin faglega vinna sem tengist aðildarumsókninni muni nýtast vel við að bæta verklag og dýpka þekkingu á málaflokkum ráðuneytisins - hvort sem af aðild verður eða ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×