Innlent

Ósannað að byssumennirnir hafi reynt að drepa fórnarlömbin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan var með gríðarlegan viðbúnað eftir skotárásina.
Lögreglan var með gríðarlegan viðbúnað eftir skotárásina. mynd/ egill.
Axel Már Smith, sem var ákærður fyrir aðild að skotárás á tvo menn í Bryggjuhverfi í nóvember síðastliðnum, var sýknaður af þeim ákærulið. Þetta kemur fram í dómnum sem Vísir hefur undir höndum. Þrír menn voru ákærðir í málinu. Auk Axels voru það þeir Kristján Halldór Jensson, sem var dæmdur í fjögurra ára fangelsi, og Tómas Pálsson Eyþórsson sem var dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi. Skotið var á bíl við bílasöluna Höfðahöllin.

Þeir Tómas og Kristján Halldór munu hafa ákveðið fund við mennina sem skotið var á í umrætt sinn. Samkvæmt dómnum þótti sannað að Tómas hafi haft byssuna meðferðis og Kristján Halldór hafi skotið að mönnunum. Héraðsdómur Reykjavíkur kemst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að ósannað hafi verð að Axel Már hafi vitað að þeir Tómas og Kristján Halldór hafi verið með byssu meðferðis þegar þeir ákváðu að fara á fund mannanna. Þá hafi hann lítið haft sig frammi í árásinni.

Saksóknari hafði ákært mennina þrjá fyrir tilraun til manndráps. Sú ákvörðun var meðal annars byggð á því að skotið hafi verið á bílinn af 15 metra færi. Sakborningar töldu hins vegar að skotið hefði verð á 25-30 metra færi. Dómari telur að færið gæti hafa verið lengra en 15 metrar. Því sé ekki nægjanlega sannað að Kristján Halldór hafi beitt skotvopninu með þeim hætti að mennirnir sem voru í bifreiðinni hefðu getað beðið bana af, eða að ásetningur hafi staðið til þess. Þeir Tómas og Kristján Halldór eru því sýknaðir af tilraun til manndráps. Kristján Halldór var hins vegar fundinn sekur um að hafa stofnað lífi og heilsu mannanna sem voru í bílnum í augljósan háska og Tómas var fundinn sekur um að hafa átt aðild að því.

Axel Már, sem var sýknaður af aðild að skotárásinni, var aftur á móti dæmdur til að greiða um 70 þúsund krónur í sekt vegna þess að tæp 9 grömm af maríjuana fundust á heimili hans við húsleit.


Tengdar fréttir

Höfuðpaur í skotárásarmáli í fjögurra ára fangelsi

Kristján Halldór Jensson, höfuðpaurinn í skotárásarmálinu í Bryggjuhverfi, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavikur í dag. Tómas Pálsson Eyþórsson var dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir aðild sína að málinu og Axel Smith var dæmdur til að greiða tæpar 70 þúsund krónur í sekt. Tómas var sá eini af sakborningunum sem var mættur við dómsuppkvaðningu. Mennirnir eru dæmdir fyrir hættubrot en ekki tilraun til manndráps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×