Innlent

Rangt að koffín auki þrek og orku

Framleiðendur koffíndrykkja sem fullyrða að vörur þeirra auki þrek og orku eru beinlínis rangar segir prófessor við Háskólann í Reykjavík sem hefur unnið að rannsóknum á áhrifum koffíns í fjöldamörg ár.

Margir sem drekka kaffi reglulega geta vart hugsað sér að byrja daginn án þess að fá sér að minnsta kosti einn bolla og lifa í þeirri trú um að koffínið auki einbeitingu og slái á þreytu.

„Það sem gerist í raun og veru er að það dregur úr fráhvarfseinkennunum. Manni líður ekki bara eðlilega heldur fær maður þá tilfinningu að kofffínið bæti getu manns til að hugsa skýrt og vinna betur," segir Jack James, prófessor við sálfræðideild HR.

Sá sem sneiðir framhjá kaffi verður ekki var við fráhvörfin, þar á meðal þreytu, einbeitingar- og svefnleysi og þarf þar af leiðandi ekki drykkinn til að losna við þau.

„Maður vinnur alveg jafnvel og maður getur með því að drekka kaffi. Svo maður hefur alls engan hag af því, það er blekking. Gagnið er blekking. Það eru áhrif, en bara vegna þess að maður stendur lágt vegna koffínfráhvarfsins."

Þessar uppgötvanir byggjast á niðurstöðum rannsókna sem James hefur stýrt á síðustu árum.

„Í um hundrað ár hefur fólk trúað því að koffín bæti frammistöðu og létti geð. Það er ekki fyrr en með þessari tilraun þar sem við höfum stjórn á fráhvörfunum og ógildingu þeirra að við höfum komist að því að það er ekkert gagn að því," segir James.

Og samkvæmt þessu ættu framleiðendur koffíndrykkja að endurskoða fullyrðingar sínar.

„Að það gefi manni aukaorku eða geri mann hæfan til að gera hlutina betur en maður gæti annars, það er algerlega rangt."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×