Innlent

Júpíter og Venus eiga stefnumót saman

Þessi mynd var tekin árið 2008 og sýnir sama fyrirbæri og nú á sér stað.
Þessi mynd var tekin árið 2008 og sýnir sama fyrirbæri og nú á sér stað.
Tvær björtustu plánetur sólkerfisins, Júpíter og Venus, skína nú skærar í vesturhimni. Síðustu daga hafa pláneturnar nálgast hvor aðra hratt og næstu daga munu þær eiga náið stefnumót saman.

Á morgun munu aðeins þrjár gráður skilja pláneturnar að og ættu stjörnuáhugamenn ekki að missa af þessu fyrirbæri.

Venus og Júpíter eru björtustu reikistjörnur sólkerfisins. Aðeins tunglið er bjartara.

Samkvæmt Sævari Helga Bragasyni hjá Stjörnufræðivefnum er sjónarspilið magnað. „Þetta ætti ekki að fara framhjá neinum," sagði Sævar. „Sé litið til vesturs má auðveldlega sjá pláneturnar."

Veðurspáin er þó ekki beinlínis hentug fyrir stjörnuskoðun. Samkvæmt veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands verður alskýjað næstu daga. Það gæti þó mögulega rofað til öðru hverju.

Sævar er þó vongóður. „Þetta er magnað fyrirbæri sem enginn má missa af."

Hægt er að lesa pistil sem Sævar skrifaði um fyrirbæri á vefsvæði hans. Einnig er hægt að fræðast um Júpíter og Venus á Stjörnufræðivefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×