Innlent

Nefndarfundi slitið út af Facebook færslu Vigdísar Hauks

Valgerður Bjarnadóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sleit í morgun fundi skömmu eftir að hann hófst þegar í ljós kom að Vigdís Hauksdóttir þingkona Framsóknarflokksins hafði sett inn færslu á Facebook síðu sína þar sem hún sagði að á fundi nefndarinnar hefði verið ákveðið að slá af þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni.

Færsla Vigdísar var á þessa leið: „stórfrétt - nú var eiginlega endanlega verið að slá út þjóðararatkvæðagreiðslu um skýrslu stjórnlagaráðs samhliða forsetakosningum !!!"

Þegar þetta fréttist varð uppi fótur og fit í nefndinni og mun Álfheiður Ingadóttir hafa tekið þessu uppátæki Vigdísar sérlega illa. Formaður nefndarinnar sleit þá fundi og skömmu síðar skrifaði Vigdís aðra Facebook færslu:

„Fundi stjórnskipunar - og eftirlitsnefndar var slitið vegna þessarar sannleiksfærslu og 5 gestir sem biðu frammi sendir heim - þ.á.m. fulltrúar Seðlabankans - umfjöllunarefnið - jú frumvarp til upplýsingalaga - getur ekki verið kaldhæðnara ..."

Þingfundur hófs síðan klukkan hálf tvö með umræðu um störf þingsins og þá var málið rætt. Álfheiður Ingadóttir kom meðal annars í pontu og talaði um „fádæma smekkleysi" Vigdísar. Hún minnti á að um lokaðan fund hafi verið að ræða og Vigdísi því óheimilt að vitna til orða nefndarmanna.

Hálfgerð upplausn varð í þingsal í kjölfarið og ákvað forseti Alþingis að gera fimm mínútna hlé á fundi þar til um hægðist.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.