Innlent

Slökkviliðsstjóri Selfoss: "Við höfðum gríðarlegar áhyggjur"

Grunur leikur á að eldurinn sem kom upp í húsnæði SET á Selfossi í dag hafi verið af völdum rafmagns. Slökkviliðsstjóri á Selfossi segir að gríðarlega hætta hafi myndast þegar eldurinn kom upp.

„SET er ein af okkar stærri áhættum," sagði Kristján Einarsson, Slökkviliðsstjóri. „Það er afar mikill eldsmatur á svæðinu - plast og annað - við þurftum því að vinna samkvæmt ákveðinni aðgerðaráætlun þegar eldurinn kom upp. Þegar eldur kemur upp í SET, þá höfum við verulegar áhyggjur."

Allur mannafli slökkviliðsins á Selfossi var kallaður út þegar eldurinn kom upp. Kristján sagði að áhættan sem myndaðist hafi kallaði á meira mannafl og var því haft samband við útstöðvar Slökkviliðsins í Árnessýslu. Að auki voru tíu menn úr Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kallaðir til.

„Ég vildi hafa allan þann mannafla sem ég gat fengið," sagði Kristján.

„Þetta er tugmilljóna tjón," sagði Kristján. „En þetta hefði getað orðið milljarða tjón hefðum við ekki náð að halda eldinum í skefjum. Við voru í raun skíthræddir um að eldurinn myndi dreifa úr sér. Sem betur fer tókst okkur að færa eldsmatinn sem var á milli húsanna."

Búið er að hreinsa öll innviði út úr húsnæði 800 bars. Skemmtistaðurinn brann til kalda kola þegar eldtungur frá húsnæði SET læstu sér í þaki hans. Á morgun munu rannsóknarmenn mæta á staðinn og hefja formlega rannsókna á eldsupptökum. Lögreglan á Selfossi vaktar svæðið í kvöld og í nótt.

Hægt er að sjá myndbrot frá eldsvoðanum á Selfossi hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×