Innlent

Ísbjörn kallar á tugi nýrra starfa á Ísafirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Í fyrsta sinn í tvo áratugi hefur togari bæst í flota Vestfirðinga. Hartnær þrjátíu störf eru að bætast við á Ísafirði vegna kaupa á rækjutogara, sem fer í sína fyrstu veiðiferð í næstu viku. Eigendur ætla með skipakaupunum að styrkja rækjuiðnaðinn í höfuðstað Vestfjarða.

Togarinn hefur fengið nafnið Ísbjörn og hafði legið óhreyfður í fjögur ár þegar feðgarnir Jón Guðbjartsson og Guðbjartur Jónsson keyptu hann af Íslandbanka fyrir þremur mánuðum. Þeir fóru einnig fyrir hópi Vestfirðinga sem keyptu rækjuverksmiðjuna á Ísafirði þegar hún fór í þrot fyrir fimm árum og gera út tvö önnur togskip.

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 segir Jón togarakaupin eðlilegt framhald af því sem þeir hafi verið að gera og með þeim sé ætlunin að setja styrkari stoðir undir rækjuiðnaðinn. Stefnt er að því að Ísbjörn haldi til veiða í næstu viku að loknum miklum endurbótum.

Togaranum er ætlað að veiða rækju bæði innan og utan íslensku lögsögunnar, til að afla hráefnis fyrir rækjuvinnslu Kampa. Milli 70 og 80 manns unnu í fyrra hjá fyrirtækinu en togarakaupin þýða mikla fjölgun starfa, upp í 110-120 störf, að sögn Jóns, en nýja skipið þýðir 25-30 manns.

Á blómaskeiði rækjuiðnaðarins fyrir tveimur áratugum voru sjö rækjuverksmiðjur við Ísafjarðardjúp en nú er Kampi ein í rekstri. Þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði hafa menn hér enn trú á því að rækjan geti reynst Vestfirðingum búbót.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×