Innlent

Barnshafandi konur láta fjarlægja PIP-sílíkonpúða

Erla Hlynsdóttir skrifar
Þrjár barnshafandi konur eru á leið í aðgerð til að láta fjarlægja PIP-sílíkonpúða. Reynt verður að staðdeyfa konurnar þar sem þungaðar konur eru ekki svæfðar nema brýna nauðsyn beri til.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur verið gert viðvart um háa lekatíðni PIP brjóstapúða hér á landi. Alls hafa 68% kvenna sem hafa farið í ómskoðun reynst með leka púða.

Konum með PIP-púða býðst að fara í aðgerð á Landspítalanum þeim að kostnaðarlausu. Þar eru þungaðar konur í sérstökum forgangi.

Fréttastofu er kunnugt um að þrjár óléttar konur séu á leið í aðgerð þar sem sílíkonpúðarnir eru fjarlægðir. Almennt eru konur svæfðar fyrir slíka aðgerð en til að komast hjá mögulegri áhættu fyrir fóstur sem og móður, verða konurnar staðdeyfðar í byrjun og reynt að fjarlægja púðana þannig. Ef ástand púðana reynist svo slæmt að aðgerðin verður flóknari, verða konurnar svæfðar.

Samkvæmt þeim svæfingalæknum sem fréttastofa ræddi við í dag er ekki staðfest að þau lyf sem notuð eru við svæfingu hafi skaðleg áhrif á fóstur. Hins vegar sé fóstrið alltaf látið njóta vafans og þungaðar konur því ekki svæfðar nema brýna nauðsyn beri til.

Óléttu konurnar fara í aðgerðina að læknisráði.

Engin svör fengust á Landspítalanum um aðgerðirnar og mögulega hættu af þeim þegar eftir því var leitað og vísað var á Landlækni. Hann segir að það sé alfarið læknisfræðilegt mat að hverju sinni hvort fjarlægja eigi púða úr þunguðum konum. Hann tekur fram að ekki sé talin stafa bráðahætta af PIP-puðunum og að landlæknir hafi engin tilmæli gefið út varðandi óléttar konur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×