Innlent

Sakargiftir voru fyrndar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigríður Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari.
Sigríður Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari.
Ástæða þess að Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari ákvað að fella niður sakamál gegn lögreglunni eftir að hún fór með myndatökumenn Kastljóss í húsleit í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu var fyrning sakargiftanna. Sigríður segir að Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni hefði átt að vera þetta ljóst hefði hann lesið bréf ríkissaksóknara frá 27. janúar síðastliðinn.

Forsaga málsins er sú að lögreglan fór með myndatökumann Kastljóss í húsleit í Vatnsendahverfi fyrir fáeinum misserum. Húsráðendur voru ekki heima. Þeir voru ósáttir við myndatökuna, þótt myndefnið hafi aldrei verið sýnt, og tölu að lögreglumenn hefðu brotið reglur og þegnskylduákvæði lögreglulaga. Þeim voru dæmdar bætur í héraðsdómi í gær en lögmaður þeirra er afar ósáttur við að sakamálahluti málsins hafi verið látinn niður falla.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir að í fyrrnefndu bréfi komi skýrt fram að ríkissaksóknari taldi, líkt og héraðsdómur, að samþykki húsráðanda fyrir myndatöku hafi verið nauðsynlegt og þar með hefði það verið andstætt ákvæði 132. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að heimila utanaðkomandi aðila myndatökur á heimili kærenda.

Sigríður segir að embætti Ríkissaksóknara muni fjalla um beiðni lögmannsins um endurupptöku málsins og telji af þeim ástæðum rétt að tjá sig ekki um framkomnar athugasemdir lögmannsins á þessu stigi. Hún segir embættið leggja almennt til grundvallar að mál sem varði kærur á hendur lögreglu fái faglega og vandaða umfjöllun hjá embættinu með sama hætti og önnur sakamál. Embættið muni íhuga hvort rétt sé á síðari stigum að koma á framfæri athugasemdum á opinberum vettvangi vegna ummæla lögmannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×