Innlent

Hægt að treysta því að umsóknir verði metnar faglega í Kópavogi

Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs í Kópavogi.
Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs í Kópavogi.
Guðríður Arnardóttir formaður bæjarráðs Kópavogs segir að umsækjendur um lóðir í bænum geti framvegis treyst því að umsóknirnar verði metnar faglega og málefnalega. Þetta segir Guðríður í tengslum við dóm sem féll í Hæstarétti fyrir áramótin sem var á þá leið að bærinn hafi mismunað umsækjendum um byggingarétt á Kópavogstúni árið 2005. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að yfirvöld hafi útilokað umsækjendur sem sóttu málið frá því að koma til álita við úthlutun á tveimur lóðum sem sótt var um.

„Reglur Kópavogsbæjar um úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði eru mun skýrari og ótvíræðari nú en þær voru árið 2005," segir í yfirlýsingu. „Því ættu ágreiningsatriði þau sem fram koma í dómi Hæstaréttar frá því fyrir jól ekki að rísa aftur."

„Vinnubrögð við lóðaúthlutanir í Kópavogi hafa harðlega verið gagnrýnd á undanförnum árum og hafa þær m.a. verið taldar ólögmætar í þeim tilfellum sem umsækjendur hafa óskað álits innanríkisráðuneytisins, áður félagsmálaráðuneytisins, eða dómstóla," segir Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs.

Þá er bent á að reglunum hafi í tvígang verið beitt frá því umrætt mál kom upp. „og þær gerðar skýrari og gegnsærri, nú síðast þann 11. október 2011. Ef umsækjendur um lóð eru fleiri en einn skal nú dregið á milli þeirra sem uppfylla skilyrði um fjárhagsstöðu og hafa ekki fengið úthlutun á síðustu tíu árum."

Einnig hefur verið afnumið það ákvæði að bæjarráð meti umsækjendur út frá „fjölskylduaðstæðum, búsetu og fjárhags- og húsnæðisaðstöðu, en um það var m.a. tekist í fyrrgreindu máli í Hæstarétti," segir ennfremur.

Þá er það framkvæmdaráð, í stað bæjarráðs áður, sem auglýsir byggingarrétt á lóðum, annast afgreiðslu umsókna og gerir tillögu til bæjarstjórnar um úthlutun.

„Umsækjendur um lóðir í Kópavogi geta nú treyst því að umsóknir þeirra verða metnar faglega og málefnalega," segir Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×