Fótbolti

Mourinho: Lygi að halda því fram að Real spili leiðinlegan fótbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, gefur ekki mikið fyrir þær fullyrðingar að Real Madrid spili leiðinlega knattspyrnu.

Real er nú í efsta sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með þriggja stiga forystu á erkifjendurna í Barcelona.

„Real Madrid hefur verið að spila mjög vel. Þeir ljúga sem segja eitthvað annað og að við höfum bara áhuga á úrslitum leikjanna," sagði hann í viðtali sem birtist á heimasíðu félagsins.

„Við spilum vel, skemmtum áhorfendum sem halda áfram að koma á völlinn til að horfa á okkur spila. Santiago Bernabeu er alltaf smekkfullur, sama við hverja við erum að spila."

Mourinho sagðist ekki vera á leið frá félaginu. „Það eru mörg góð ár fram undan. Við eigum enn eftir að ná okkar besta fram og ég myndi aldrei ganga frá hálfkláruðu verki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×