Innlent

Rauði krossinn aðstoðar við uppbyggingu neyðarvarna

Rauði krossinn á Íslandi leggur til þrjá íslenska sérfræðinga sem munu næsta árið aðstoða systursamtök sín í Armeníu og Georgíu við uppbyggingu neyðarvarna í löndunum.

Sérþekking Rauða krossins á Íslandi í uppbyggingu neyðarvarna og viðbrögðum við náttúruhamförum er ein af burðarstoðunum í stóru neyðarvarnaverkefni í Armeníu og Georgíu en Evrópusambandið styrkir verkefnið um 770 þúsund evrur eða sem nemur 120 milljónum króna. Þá leggur Rauði krossinn 7 milljónir í verkefnið.

Jarðskjálftar, aurskriður, snjóflóð og flóð ríða reglulega yfir í löndunum tveimur. Almannavarnir þessara landa hafa fram að þessu verið bágbornar og hafa stjórnvöld og íbúar átt erfitt með að takast á við afleiðingar náttúruhamfara.

Verkefnið felst meðal annars í því að efla viðbúnað og bæta þekkingu á neyðarvörnum og neyðaraðstoðar. Markmiðið er að lágmarka tjón og slys af völdum náttúruhamfara og kenna rétt viðbrögð við þeim.

Þá verða neyðarteymi þjálfuð í þeim héruðum sem verst hafa orðið úti vegna náttúruhamfara á liðnum árum.

Verkefnið verður í gangi næstu 17 mánuði og mun ná beint til um 125 þúsund manns. Um þrjár milljónir manna munu njóta góðs af því óbeint í formi öflugra almannavarnakerfis og betri neyðarviðbúnaðar í löndunum tveimur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×