Innlent

Tvær í tjaldi og ein á víðavangi

Ein kona kærði nauðgun sem átti sér stað utandyra í Herjólfsdal, en engin vitni eru að árásinni sjálfri.
Ein kona kærði nauðgun sem átti sér stað utandyra í Herjólfsdal, en engin vitni eru að árásinni sjálfri.
Lögreglan leitar enn tveggja manna í tengslum við nauðganir sem hafa verið kærðar eftir nýliðna Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Lögreglan á Selfossi og í Vestmannaeyjum rannsakar málin en alls kærðu þrjár konur nauðgun á hátíðinni. Málin eru óskyld, tvær nauðganir áttu sér stað í tjaldi og ein á víðavangi.

Nú er verið að skoða upptökur úr öryggismyndavélum og yfirheyra vitni til þess að fá nánari lýsingar á mönnunum tveimur sem leitað er að. Þeir eru taldir um eða yfir tvítugt.

Að sögn Elísar Kjartanssonar, lögreglufulltrúa á Selfossi, er rannsókn enn í fullum gangi. „Við erum að yfirheyra vitni enn frekar til að fá gleggri mynd af þessu öllu saman og af þeim,“ segir hann. „Við erum ekki búnir að gefast upp.“

Elís segir lýsingar á mönnunum heldur óljósar og byggir lögreglan því rannsókn sína að miklu leyti á upptökum eftirlitsmyndavéla til að fylgjast með ferðum fórnarlambanna og sjá hverja konurnar hittu. „Við bindum vonir við að myndavélarnar komi að gagni,“ segir Elís. „Ef þær væru ekki til staðar væri þetta mun erfiðara.“

Búið er að taka skýrslu af einum manni sem neitar alfarið sök, og að sögn lögreglu ber sögum kæranda og hins grunaða ekki saman. Verið er að yfirheyra frekari vitni í því máli og verður það síðan sent til ákæruvaldsins þegar niðurstöður úr DNA-rannsóknum eru komnar.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×