Innlent

Háskólanemar smíðuðu kappakstursbíl frá grunni

Alls 20 úr hópnum ferðuðust með bílnum á Silverstone-kappaksturbrautina í Bretlandi.
Alls 20 úr hópnum ferðuðust með bílnum á Silverstone-kappaksturbrautina í Bretlandi.
Fólk 27 manna hópur nemenda við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands tók á dögunum þátt í alþjóðlegu hönnunarkeppninni Formula Student sem fram fór á Silverstone-kappakstursbrautinni í Bretlandi. Hópurinn hefur síðustu tvö ár hannað rafknúinn kappakstursbíl en þetta var í annað sinn sem hann tekur þátt í keppninni.

„Við gerðum bílinn í raun alveg upp á nýtt fyrir keppnina í ár, það var svo margt sem þurfti að bæta. Við lögðum mikla vinnu í þetta og bíllinn í ár er algjör stökkbreyting frá bílnum í fyrra,“ segir Ari Elísson, meistaranemi í iðnaðarverkfræði og einn liðsmanna.

Alls 20 úr hópnum fóru til Bretlands til að taka þátt í keppninni sem skiptist í tvo hluta. Í þeim fyrri er hönnun bílsins kynnt sem og hugmyndafræði og viðskiptalíkan hópsins. Í seinni hlutanum er aksturshæfni bílsins metin en til að fá að taka þátt í þeim hluta þurfa bílarnir að standast öryggispróf.

Lið frá 110 skólum tóku þátt að þessu sinni en keppnin er haldin árlega. Svo fór að rafkerfi íslenska bílsins stóðst ekki öryggispróf og fékk liðið því ekki að taka þátt í aksturshlutanum. Ari segir flesta meðlimi liðsins vera að útskrifast úr námi og því taki nýr hópur við bílnum. Bæta þurfi nokkur smáatriði en bíllinn sé þó miklu fullkomnari en bíll síðasta árs. Segist Ari eiga von á því að með lagfæringum í vetur standist hann allar kröfur á næsta ári.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×