Innlent

Efast um þátttöku Akureyrar

HUANG NUBO
HUANG NUBO
Vaxandi efasemdir eru um þátttöku Akureyrarbæjar í verkefni á Grímsstöðum. Fulltrúar minnihlutans vilja að bærinn dragi sig úr verkefninu. Bærinn hefur ekki skuldbundið sig segir formaður bæjarráðs.

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Akureyrar telja að endurskoða eigi þátttöku bæjarins í GáF, félagi sveitarfélaga á Norðausturlandi um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og leigu til kínverska fjárfestisins Huangs Nubo. Málið var á dagskrá bæjarráðs á fimmtudag, en frestað þar til drög að samningi liggja fyrir.

Edward Huijbens, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, hefur miklar efasemdir um trúverðugleika fjárfestingaráforma varðandi verkefnið og hvert markmiðið sé með þátttöku Akureyrarbæjar í GáF. Edward er varabæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Akureyri.

„Ég biðla til meirihlutans að gera sér vandlega grein fyrir hvaða hagsmuni bærinn telur sig vera að verja með þátttöku í uppbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum. Ég hef sannarlega áhyggjur af því að bærinn muni fara mikla sneypuför í þessu verkefni og mundi vilja að Akureyrarbær drægi sig út úr GáF.“

Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs, segir bæinn ekki hafa skuldbundið sig til þátttöku í verkefninu. Málið hafi verið kynnt á fundi bæjarráðs á fimmtudag og drög að samningi verði kynnt þar áður en skrifað verður undir. Ekkert hafi þó gerst sem kalli á það að bærinn dragi sig út úr ferlinu.

„Það er ekki búið að samþykkja neitt. Alveg eins og ráðherra hefur sagt, það er ekkert endanlegt í þessu, þetta er bara enn þá í vinnslu.“

Njáll Trausti Friðbertsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir fjölda spurninga enn ósvarað í málinu. Flokkurinn greiddi atkvæði gegn þátttöku bæjarfélagsins í GáF og Njáll Trausti segir að álitamálum hafi fjölgað síðan þá.

„Mér finnst vera mjög til skoðunar að bærinn dragi sig úr verkefninu. Það þarf að velta því fyrir sér hverjir eru raunverulegir hagsmunir Akureyrar í þessu máli, af hverju við eigum að standa í þessu.“- kóp / sjá síðu 6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×