Innlent

Játar hrottalega líkamsárás í Herjólfsdal

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Þekktur ofbeldismaður hefur játað að hafa ráðist á mann á Þjóðhátíð í nótt og sýna upptökur úr eftirlitsmyndavél hve hrottaleg líkamsárásin var. Ein nauðgun hefur verið kærð á hátíðinni og fjöldi fíkniefnamála komið inn á borð lögreglu.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni var í fyrstu talinn höfuðkúpubrotinn og þótti ráð að flytja hann á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum.

„Hann er ekki brotinn samkvæmt okkar upplýsingum eins og talið var en hann er illa marinn og ekki alveg ljóst hvort að það hafi verið eitthvað innvortis, heilamar eða slíkt. Það er ekki komið í ljós. Hann er allavega laus af sjúkrahúsinu og það reyndist ekki þörf á að flytja hann til Reykjavíkur til frekari læknismeðferðar," segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum.

Árásarmaðurinn sem er undir tvítugu er þekktur ofbeldismaður að sögn lögreglu og var hann handtekinn í kjölfar árásarinnar og vistaður í fangageymslu. Þrátt fyrir að árásin hafi verið hrottaleg er hún þó ekki þess eðlis að krafist verði gæsluvarðhalds yfir manninum að sögn lögreglu.

„Hann er reyndar hér enn í haldi. Það er búið að taka af honum skýrslu og hann viðurkennir að hafa slegið hann," segir hann.

Ellefu eftirlitsmyndavélum var komið fyrir á hátíðarsvæðinu rétt fyrir helgi og náði ein þeirra myndum af árásinni.

„Þetta átti sér stað á brúnni sem er yfir tjörnina þannig að þetta nær vel yfir, þetta er aðeins úr smá fjarska en þetta sést samt alveg greinilega," segir hann. „Það sannaðist að þetta er góð viðbót við annað sem þarna er í Dalnum, gæslu og annað. Þannig að við getum nýtt okkur þetta í þágu rannsóknar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×