Íslenski boltinn

Andri: Verið erfitt fyrir alla aðila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/GVA
Andri Marteinsson er því feginn að hann sé búinn að ganga frá samningum við Víking og hlakkar til sumarsins sem er fram undan.

Andri var í dag ráðinn þjálfari liðsins í stað Leifs Garðarssonar sem var vikið úr starfi í síðustu viku. Andri hefur þjálfað lið Hauka undanfarin ár en hætti hjá félaginu í gær.

„Þetta er vissulega mjög sérstakt og þetta hefur verið mjög erfitt ferli fyrir alla aðila. Haukarnir leika líka stórt hlutverk í þessu enda þurftu þeir að finna nýjan þjálfara. Þeir hafa brugðist vel við því og klárað sín mál fljótt og vel," sagði Andri en í dag var tilkynnt að Magnús Gylfason væri nýr þjálfari Hauka.

„Þetta er búið að vera erfitt og ég er ánægðastur með að þetta hafi allt fengið farsælan endi."

Andri hefur nú tæpa tvo mánuði til að koma sínum áherslum til skila en keppni í Pepsi-deild karla hefst þann 1. maí næstkomandi.

„Ég veit að ég er að taka við góðu búi. Leifur er búinn að byggja upp leikmannahóp liðsins en að öllu öðru leyti verður mitt handbragð á liðinu. Það mun koma fram í því hvernig leikir liðsins verða lagðir upp, hvernig liðinu verður stillt upp og hvernig það muni spila."

„Ég á eftir að sanna mig fyrir hópnum og það er verðugt verkefni að fá hópinn til að hafa trú á því sem ég hef fram að færa. Ef það gengur vel er ég bjartsýnn á sumarið. Það er óþarfi að vera með flotta umgjörð í kringum liðið eins og er hér í Víkinni ef liðið er ekki tilbúið."

Andri er sjálfur uppalinn Víkingur og lék með liðinu á níunda áratug síðustu aldar. Víkingur varð Íslandsmeistari árið 1991 en Andri fór frá liðinu og gekk til liðs við FH aðeins tveimur árum áður.

„Ég missti af titlinum. Það er því ákveðinn hvati fyrir mig að reyna að kvitta fyrir það með því að vinna titilinn hér með Víkingum þetta mörgum árum síðar," sagði hann og brosti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×