Fótbolti

Messi: Við megum ekki klikka í næsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AP
Lionel Messi og félagar í argentínska landsliðinu hafa ekki verið að gera góða hluti í byrjun undankeppni HM 2014 en liðið hefur aðeins náð í eitt stig út úr síðustu tveimur leikjum eftir 1-1 jafntefli við Bólivíu í nótt.

Næsti leikur er á útivelli á móti Kólumbíu á þriðjudaginn og Messi reyndi að stappa stálinu í sína menn þegar hann hitti blaðamenn eftir jafnteflisleikinn í nótt.

„Það er stutt í næsta leik og við vitum að hann verður mjög erfiður eins og allir leikir á útivelli," sagði Lionel Messi.

„Við megum bara ekki klikka í næsta leik. Við verðum bara vinna vegna þessa jafnteflis í kvöld," sagði Messi.

„Við fengum færi til að skora fleiri en eitt mark og Bólivía skoraði sitt mark upp úr þurru. Eftir það varð þetta allt saman flóknara," sagði Messi en það var síðan varamaðurinn Ezequiel Lavezzi sem tryggði argentínska landsliðinu jafntefli í leiknum.

Lionel Messi skorað eitt mark í 4-1 sigri á Síle í fyrsta leik en hefur ekki náð að skora í síðustu tveimur leikjum, 0-1 tapi fyrir Venesúla og 1-1 jafntefli á móti Bólivíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×