Fótbolti

Messi: Sárt að þurfa að hlusta á baulið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AP
Það skilja fáir í döpru gengi argentínska landsliðsins enda hefur liðið heimsklassaleikmenn innanborðs eins og Lionel Messi, Javier Mascherano, Javier Pastore, Angel di Maria og Sergio Aguero.

Knattspyrnuáhugamenn í Argentínu hafa undanfarið haft mun fleiri tækifæri til að baula á landsliðið sitt en að fagna mörkum eða góðum sigrum. Lionel Messi er vanur því að vera hyltur hjá Barcelona og segir að það sér erfitt að hlusta á baulið þegar hann kemur heim til Argentínu.

Argentínumenn létu landsliðsmenn sína enn á ný heyra það í jafnteflinu á móti Bólívíu á föstudagskvöldið en í leiknum á undan hafði Argentína tapað á móti Venesúela. Argentína hefur þar með aðeins náð í fjögur stig í fyrstu þremur leikjum sínum í undankeppni HM 2014.

„Heimsmeistarakeppnin, Suður-Ameríkukeppnin og núna þetta. Þetta er búið að vera mjög erfitt og það er sárt að hlusta á baulið. Það gerir mig reiðan að ná ekki að vinna þessa leiki," sagði Lionel Messi sem hefur aðeins náð að skora 5 mörk í síðustu 22 landsleikjum sínum sem þykir ekki mikið mann sem hefur skorað 76 mörk í síðustu 73 leikjum sínum með Barcelona.

„Það hafa verið svo mörg vonbrigði að undanförnu og ég bara veit ekki hvort við getum beðið argentínsku þjóðina um meiri þolinmæði," sagði Messi sem fékk afhent fyrirliðaband argentínska landsliðsins fyrir undankeppni HM.

Hann veit það vel að hann mun aldrei eiga möguleika á því að vera talinn besti knattspyrnumaður sögunnar fyrr en hann nær að vinna eitthvað með argentínska landsliðinu og eins og liðið er að spila í dag er einhver bið í það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×