Enski boltinn

Sir Alex Ferguson: Wayne Rooney var stórkostlegur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar marki sínu í dag.
Wayne Rooney fagnar marki sínu í dag. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hrósaði Wayne Rooney mikið eftir 2-1 sigur United á West Brom í fyrsta hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar á árinu 2011. United náði með þessum sigri þriggja stiga forskoti á toppnum og vann sinn fyrsta útileik síðan í október.

„Wayne Rooney var stórkostlegur. Hann dreif liðið áfram og frammistaða hans var út úr þessum heimi," sagði Sir Alex Ferguson eftir leikinn. Rooney skoraði fyrra markið og lagði síðan upp það síðara fyrir Javier Hernandez

„Hann er búinn að brjóta ísinn með þessu marki og vonandi kemst hann nú á skrið," sagði Ferguson en þetta var fyrsta mark Rooney utan af velli síðan í mars á síðasta ári.

West Brom átti að fá víti í fyrri hálfleik eftir brot Gary Neville á Graham Dorrans og Sir Alex var sammála því.

„Ég hélt að þetta væri víti þegar Gary Neville fór utan í Graham Dorrans í fyrri hálfleik," sagði Ferguson.

West Brom fékk ekki víti og tókst heldur ekki að nýta vítaspyrnu sem liðið fékk í seinni hálfleik. United nýtt sér það og tók öll þrjú stigin heim til Manchester.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×