Innlent

Meirihlutinn styður Icesave-samkomulag

brjann@frettabladid.is skrifar
Meirihluti landsmanna vill samþykkja Icesave.
Meirihluti landsmanna vill samþykkja Icesave.

Meirihluti landsmanna vill að Icesave-samkomulagið sem náðst hefur við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi verði samþykkt samkvæmt niðurstöðum skoðunakönnunar Fréttablaðsins.

Alls vilja 56,4 prósent að samkomulagið verði samþykkt, en 43,6 prósent vilja að því verði hafnað samkvæmt könnuninni, sem gerð var síðastliðið miðvikudagskvöld.

Aðeins meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vill innan við helmingur samþykkja Icesave-samkomulagið. Af þeim sem segjast myndu kjósa flokkinn yrði gengið til þingkosninga nú sögðust um 47 prósent vilja samþykkja samninginn en tæplega 53 prósent vildu hafna honum.

Stuðningurinn við nýja Icesave-samkomulagið er mestur innan Samfylkingarinnar, mun meiri en meðal stuðningsmanna hins stjórnarflokksins. Alls vill tæplega 71 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar samþykkja samkomulagið en 29 prósent hafna því.

Minni stuðningur er við Icesave-samkomulagið hjá Vinstri grænum, 56 prósent vilja samþykkja það en 44 prósent vilja hafna því.

Meirihluti stuðningsmanna Framsóknarflokksins styður nýja samkomulagið samkvæmt könnuninni. Um 60 prósent þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn sögðust vilja samþykkja samkomulagið, en um 40 prósent vildu hafna því.

Ekki reyndist tölfræðilega marktækt að reikna afstöðu stuðningsmanna Hreyfingarinnar til Icesave-samkomulagsins.

Um 46 prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðust myndu skila auðu, sleppa því að kjósa, eða vildu ekki gefa upp hvaða flokk þeir myndu kjósa yrði gengið til kosninga nú. Af þeim stóra hópi vildu ríflega 57 prósent samþykkja samkomulagið en tæplega 43 prósent vildu hafna því.

Fólk undir miðjum aldri vill frekar samþykkja Icesave-samkomulagið en þeir sem eldri eru. Alls vilja um 59 prósent fólks á aldrinum 18 til 49 ára samþykkja samkomulagið, en um 53 prósent af þeim sem eru 50 ára eða eldri.

Karlar eru heldur líklegri en konur til að styðja samkomulagið sem nú hefur náðst. Um 58 prósent karla vilja samþykkja samkomulagið en 55 prósent kvenna.

Hringt var í 800 manns miðvikudaginn 19. janúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Vilt þú að Icesave-samkomulagið sem nú hefur náðst við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi verði samþykkt? Alls tóku 73,4 prósent afstöðu til spurningar­innar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×