Innlent

Lögin óvenjulega fljótt til Bessastaða

Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson
Hin nýsamþykktu Icesave-lög bárust forseta Íslands innan við klukkustund eftir að þau voru samþykkt á Alþingi. „Það er mjög óvenjulegt,“ segir Örnólfur Thorsson forsetaritari.

Alla jafna þurfa starfsmenn þingsins að fínpússa frumvarpið og smíða úr því formlegt lagaskjal og það tekur yfirleitt einn til tvo daga. Að því loknu eru lögin send þeim ráðherra sem fer með málaflokkinn, sem í þessu tilfelli er fjármálaráðherra. Í ráðuneytinu eru síðan útbúnir pappírar til að senda á Bessastaði til formlegrar undirritunar. Til þess hefur ráðherrann tvær vikur en nýtir sjaldnast allan þann frest.

Að því loknu fær fulltrúi forsætisráðuneytisins pappírana í hendur og hann ber þá á Bessastaði.

Örnólfur sagðist í gærkvöldi ekkert geta sagt um það hvenær forsetinn mundi taka ákvörðun um það hvort hann staðfesti lögin eða hvenær hann mundi tilkynna ákvörðun sína.

Alla jafna staðfestir forseti lög samdægurs eða daginn eftir að þau berast honum en ákveði hann að taka sér umþóttunarfrest, eins og hann gerði með síðustu Icesave-lög, eru engar reglur til um hversu langur fresturinn má vera. Í fyrra hugsaði forsetinn málið í sex daga og tilkynnti að því loknu að hann mundi vísa Icesave-lögunum til þjóðarinnar.- sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×