Fótbolti

Bjarni Þór: Fengum tvo frídaga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Bjarni Þór Viðarsson
Bjarni Þór Viðarsson Mynd/Valli
Þó svo að margir leikmenn í U-21 landsliðinu hafi verið bundnir í öðrum verkefnum síðustu dagana voru nokkrir sem hafa ekkert annað gert síðustu tvær vikurnar en að æfa fyrir EM í Danmörkur.

Alls voru níu leikmenn úr liðinu valdir í A-landsliðið fyrir leikinn gegn Dönum um liðna helgi og þá var einnig góður slatti enn að æfa með sínum liðum í Pepsi-deildinni sem fór ekki í sitt EM-frí fyrr en í gærkvöldi.

Bjarni Þór Viðarsson er þó einn þeirra fáu sem hefur æft undir leiðsögn Eyjólfs Sverrissonar landsliðsþjálfara síðustu tvær vikurnar.

„Það hefur verið nóg að gera og fengum við aðeins tvo frídaga á þessum tíma. Við höfum líka reynt að vera mikið saman utan æfinganna og skapa góða stemningu innan hópsins. Það hefur líka verið að halda okkur við efnið og láta vita að það þýðir ekki að borða hvað sem er og gera hvað sem er," sagði Bjarni í samtali við Vísi í dag.

Hópurinn kom þó allur saman í morgun og strákarnir hófu för sína til Danmerkur.

„Það var gott að fá loksins alla saman og það er góð stemning í hópnum. Öllum líður mjög vel og við erum fegnir því að geta loksins hafið undirbúninginn þótt stuttur sé," sagði Bjarni.

Ísland mætir Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik sínum á EM í Árósum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×