Innlent

Vilja reisa dómkirkju í Skálholti

Þessi tölvugerða mynd gefur góða hugmynd um hvernig miðaldakirkjan myndi falla að núverandi umhverfi í Skálholti. Kirkja sem þarna stóð er talin hafa verið 50 metra löng, tólf metra breið og fjórtán metrar á hæð. Fjölbreytt menningarstarf fengi inni í kirkjunni ef hún rís, til dæmis í samvinnu við Þjóðminjasafn, Listasafn Íslands, Listaháskólann, leikhúsin í landinu og fleiri, eins og segir í greinargerð um endurreisn þessa stórvirkis í menningarsögu landsins.
Þessi tölvugerða mynd gefur góða hugmynd um hvernig miðaldakirkjan myndi falla að núverandi umhverfi í Skálholti. Kirkja sem þarna stóð er talin hafa verið 50 metra löng, tólf metra breið og fjórtán metrar á hæð. Fjölbreytt menningarstarf fengi inni í kirkjunni ef hún rís, til dæmis í samvinnu við Þjóðminjasafn, Listasafn Íslands, Listaháskólann, leikhúsin í landinu og fleiri, eins og segir í greinargerð um endurreisn þessa stórvirkis í menningarsögu landsins. Mynd/VSÓ ráðgjöf
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, kynnti á kirkjuþingi í gær hugmyndir um endurreisn miðaldadómkirkju í Skálholti.

Hugmyndirnar byggja á því að aðilar í ferðaþjónustu og þjóðkirkjan taki höndum saman um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu með endurreisn kirkjunnar, og reki hana sem sjálfstætt menningar- og sýningarhús.

Dómkirkjan í Skálholti er einstæð í evrópskri byggingarsögu og var um tíma stærsta timburkirkja Norðurlanda. Bygging miðaldadómkirkna í Skálholti og á Hólum er talin einstakt menningarlegt afrek, eins og segir í ítarlegri greinargerð um verkefnið sem kynnt hefur verið kirkjuráði.

Guðjón segir að verkefnið yrði fjármagnað á viðskiptalegum forsendum en fyrirkomulag eignarhalds og rekstrar bíði frekari undirbúningsvinnu. Ekki eru uppi hugmyndir um að fjármunir komi úr sjóðum kirkjunnar eða af almannafé, að hans sögn.

Áætlaður stofnkostnaður er 530 milljónir króna miðað við verðlag í september 2011. -shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×