Fótbolti

Spánn og Holland í efsta styrkleikaflokki á EM 2012

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Spánverjar eru núverandi Evrópumeistarar.
Spánverjar eru núverandi Evrópumeistarar. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur raðað liðunum sextán sem komust í úrslitakeppni EM 2012 í fjóra styrkleikaflokka.

Dregið verður í riðla föstudagnn 2. desember næstkomandi en úr riðlunum fjórum komast átta lið áfram í fjórðungsúrslit.

Úrslitakeppnin fer fram í Póllandi og Úkraínu næsta sumar og eins og venjulega er gestgjöfunum raðað í efsta styrkleikaflokk. Heims- og Evrópumeistarar Spánar eru líka í efsta styrkleikaflokki, sem og Holland. Þessi lið mættust í úrslitaleik HM síðastliðið sumar.

Athygli vekur að Frakkar, sem urðu léku til úrslita á HM 2006, eru í neðsta styrkleikaflokki en landslið Frakka hefur verið í mikilli lægð að undanförnu. Grikkir og Svíar eru hins vegar í þriðja styrkleikaflokki.

Farið er eftir stigagjöf UEFA við niðurröðunina sem byggir á úrslitum liða í keppni undanfarin fjögur ár.

Styrkleikaflokkarnir:

1. flokkur: Spánn, Holland (sem og Úkraína og Pólland).

2. flokkur: Þýskaland, Ítalía, England, Rússland.

3. flokkur: Króatía, Grikkland, Portúgal, Svíþjóð.

4. flokkur: Danmörk, Frakkland, Tékkland, Írland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×