Enski boltinn

City ekki í viðræðum um kaup á Hazard

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segir það rangt að félagið ætli sér að gera tilboð í belgíska miðjumanninn Eden Hazard hjá frönsku meisturunum í Lille.

Umboðsmaður Hazard sagði fyrr í vikunni að City hefði áhuga á kappanum en Mancini sagði á blaðamannafundi í morgun að félagið hefði ekki sett sig í samband við Lille vegna þessa.

„Hann er góður leikmaður en við höfum ekkert rætt um hann," sagði Mancini en Hazard er einn eftirsóttasti leikmaður Evrópu um þessar mundir.

Mancini sagði einnig vilja seinka för Yaya Toure til Afríku í næsta mánuði en þá hefst Afríkukeppnin í knattspyrnu. Toure leikur með landsliði Fílabeinsstrandarinnar.

„Við erum að reyna að fá brottför hans seinkað en ég held að það gæti reynst erfitt að fá það í gegn. Ég held að hann fari eftir United-leikinn," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×