Innlent

Stokkað upp í stjórninni á næstu vikum

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, nýtur ekki trausts í eigin þingflokki, þrátt fyrir eigin yfirlýsingar þar um. Þingflokkur Vinstri grænna fundaði í gær og kom þar fram megn óánægja með hvernig Jón hefur haldið á breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hávær krafa kom fram um breytingar á ríkisstjórninni og er nú unnið að því að þær verði á næstu vikum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru menn þegar farnir að huga að hvernig breytingum á stjórninni verður háttað. Líklegast er að báðir stjórnarflokkarnir geri einhverjar breytingar á ráðherraliði sínu, en nefna má að Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra fer í fæðingarorlof á næstu mánuðum. Brotthvarf Jóns yrði því ekki einstök breyting heldur hluti af stærri aðgerðum. Stokkað yrði upp fyrir lokasprett kjörtímabilsins.

Þingmenn Vinstri grænna kölluðu á þingflokksfundinum margir hverjir eftir lausn sem fæli í sér brotthvarf Jóns. Hann þykir hafa rofið trúnað með því að vinna að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu á bak við félaga sína í þingflokki og ríkisstjórn. Þá eru margir félagar hans sérstaklega ósáttir við að hann hafi, án vitundar þeirra, leitað liðsinnis út fyrir raðir stjórnarflokkanna, til dæmis með því að fá Atla Gíslason, fyrrverandi þingmann Vinstri grænna, í starfshópinn.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Jón hafi tekið fálega í mögulegt brotthvarf úr ríkisstjórn. Raunar hafi hann sagt stjórnina falla með slíkum breytingum. Það kemur stjórninni í erfiða stöðu, þar sem hún hefur aðeins eins manns meirihluta. Atli Gíslason hefur látið hafa eftir sér að hann gæti hugsað sér að yfirgefa Alþingi.

Seta hans í starfshópi Jóns vekur athygli, en hverfi hann af þingi tekur varamaður hans sæti, Arndís Sigurðardóttir. Hún styður stjórnina.

Þá hefur verið rifjað upp að Guðmundur Steingrímsson, þingmaður utan flokka, hefur sagst myndu verja ríkisstjórnina falli. Á það gæti reynt við breytingarnar.

Mikil vonbrigði eru innan stjórnarflokkanna með það hvernig Jón hefur haldið á sjávarútvegsmálum. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum átti áætlun um innköllun aflaheimilda og endurúthlutun að taka gildi 1. september síðastliðinn.

Nú eru menn aftur á upphafsreit, eftir að ríkisstjórnin hafnaði drögum Jóns á föstudag. Þá þykir Jón hafa gengið á bak orða sinna þegar hann birti drögin á vefnum á laugardag, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ætlaði ráðherranefnd í málinu að funda þann dag. Af því varð ekki.- kópAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.