Innlent

Nýtist í aðildarviðræðum við ESB

Jón Bjarnason
Jón Bjarnason
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað starfshóp sérfræðinga um stefnumörkun vegna banns á innflutningi á hráum dýraafurðum og lifandi dýrum.

Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir að þrátt fyrir að matvælalöggjöf ESB hafi verið innleidd frá og með síðustu mánaðamótum, sé enn óheimilt að flytja inn lifandi dýr eða hráar dýraafurðir, hvort sem er frá ESB-ríkjum eða annars staðar frá, nema með undanþágu frá ráðherra.

Þessi ráðstöfun byggir á ákvæði í EES-samningnum sem kveður á um að höft eða bönn megi leggja á innflutning vara ef þau megi réttlæta, meðal annars með hliðsjón af almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra.

Í frétt ráðuneytisins segir að samstarfshópurinn verði skipaður fulltrúum frá Matvælastofnun, Tilraunastöð HÍ í meinafræði, Bændasamtökunum og ráðuneytinu.

Hópurinn mun gera grein fyrir rökstuðningi og stefnumörkun Íslands í málinu. Vinna hópsins mun svo nýtast í aðildarviðræðunum við ESB, en verkefnið er sagt snúa að því að Ísland geti gripið til „nauðsynlegra ráðstafana til verndar íslensku búfé með takmörkun innflutnings á hráum búfjárafurðum og lifandi dýrum, komi til aðildar að Evrópusambandinu“. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×