Innlent

Ólafur Ragnar í slæmum félagsskap

Jólakortið sem forsætisráðherra Bretland sendi í fyrra var með mynd af honum, eiginkonu hans og dóttur. Fréttablaðið/AP
Jólakortið sem forsætisráðherra Bretland sendi í fyrra var með mynd af honum, eiginkonu hans og dóttur. Fréttablaðið/AP
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fékk ekki jólakort frá breska forsætisráðherranum í fyrra. Í breska dagblaðinu Daily Mail segir að með því að senda þjóðarleiðtogum ekki jólakort sé ráðherrann að sýna hverjir úr þeirra hópi séu í ónáð.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, brá út af þeirri venju sinni að senda öllum þjóðarleiðtogum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins jólakort í fyrra. Tveir voru skildir út undan: Ivo Josipovic, forseti Króatíu, og Ólafur Ragnar Grímsson. Í frétt Daily Mail segir að Cameron sé með því að sýna óánægju sína með afstöðu Íslands í Icesave-deilunni.

Alls fengu 88 þjóðarleiðtogar jólakort frá Cameron í fyrra, en áhugaverðara er að skoða hverjir fengu ekki kort. Á þeim lista eru til dæmis Hugo Chavez, forseti Venesúela, Mahmoud Ahmedinejad, forseti Írans, Kim Jong-Il, forseti Norður-Kóreu, og Róbert Mugabe, forseti Simbabve.

Þar voru einnig fyrrverandi leiðtogar Líbíu, Túnis og Egyptalands, sem nú hafa ýmist verið hraktir frá völdum eða drepnir.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×