Innlent

Hleyptu af byssunni í miðri eftirför

Skotárásin átti sér stað á þessu bílastæði við Höfðahöllina.
Fréttablaðið/pjetur
Skotárásin átti sér stað á þessu bílastæði við Höfðahöllina. Fréttablaðið/pjetur
Mennirnir sem eru í haldi grunaðir um skotárás um síðustu helgi skutu í átt að fórnarlambi sínu úr bíl á ferð í miðri eftirför. Þetta fullyrðir fórnarlambið, að því er fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir mönnunum.

Samkvæmt frásögn þess sem varð fyrir árásinni fékk hann ítrekuð símtöl í aðdragandanum frá sautján ára pilti sem vildi hitta hann og boðaði hann að bílasölunni Höfðahöllinni. Mikil leit var gerð að piltinum dagana eftir árásina, hann loks handtekinn, yfirheyrður og síðan sleppt.

Maðurinn kveðst hafa mætt á bílaplanið og þar hafi pilturinn tekið að sparka í bíl hans. Fljótlega hafi tveir menn stigið út úr nálægum bíl, annar vopnaður haglabyssu, líklega afsagaðri. Hann hafi orðið skelkaður og bakkað af stað en þá hafi verið skotið á bílinn.

Í kjölfarið hafi upphafist eftirför, þar sem maðurinn ók undan árásarmönnunum en fljótlega hafi dregið mjög saman með þeim og þá hafi hann heyrt skothvell og afturrúðan í bíl hans sprungið. Hann hafi síðan brunað niður á lögreglustöð.

Hæstiréttur staðfesti á þriðjudag gæsluvarðhald yfir öðrum skotmannanna til föstudags. Hinn er einnig í varðhaldi.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×