Innlent

Borgum fyrir vatn og umbúðir

Úttekt Matís sýnir að umbúðir, ís og vatn eru hluti af kílóverði frosins fisks.fréttablaðið/valli
Úttekt Matís sýnir að umbúðir, ís og vatn eru hluti af kílóverði frosins fisks.fréttablaðið/valli
Kílóverð á frosnum fiski í verslunum er einnig fyrir ís, vatn og umbúðir. Þegar frosinn fiskur er soðinn er þyngdin í sumum tilvikum einungis helmingurinn af því sem borgað var fyrir. Þetta er niðurstaða úttektar Neytendasamtakanna sem framkvæmd var af Matís á gæðum frosins fisks í stórmörkuðum.

Kvartanir neytenda um óeðlilega rýrnun á frystum fiski við þíðingu og eldun berast reglulega til Neytendasamtakanna og var því talin ástæða til að kanna málið nánar. Fyrir þau sýni sem könnuð voru náði nettóþyngd fisks ekki merktri þyngd. Neytendur eru því að borga fyrir umbúðir, íshúð og hrím í umbúðum á sama kílóverði og fyrir fiskinn.

Nýting fisksins við suðu var á bilinu 69 til 79 prósent. Þegar íshúð og vatnstap við þíðingu var tekin með í reikninginn varð nýtingin 50 til 79 prósent. Þegar nýtingin er aðeins 50% þýðir það að aðeins helmingurinn af keyptum fiski endar á diski neytandans.

Í skýrslu Matís kemur fram að íshúð var aðeins til staðar á sumum sýnanna. Því er raunhæfur verðsamanburður neytenda á frosnum fiski útilokaður þegar hann er ýmist í boði með eða án íshúðar og hún vigtuð með.

Kannaður var frystur og pakkaður fiskur í frystiborðum Krónunnar, Bónuss, Nóatúns og Hagkaups í júlí og nóvember. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×