Innlent

Stórsköðuðu landa sinn í andliti

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði mennina tvo í gæsluvarðhald.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði mennina tvo í gæsluvarðhald.
Tveir Pólverjar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald á laugardagskvöld vegna mjög alvarlegrar líkamsárásar á landa sinn. Gæsluvarðhaldið, sem er á grundvelli rannsóknarhagsmuna, rennur út á morgun.

Atvikið átti sér stað í leiguherbergjum í Funahöfða aðfaranótt laugardagsins, eftir því sem Fréttablaðið kemst næst. Mennirnir urðu ósáttir sem endaði með því að tveir gengu í skokk á þeim þriðja og stórsköðuðu hann, einkum í andliti, þar sem hann mun hafa hlotið mörg beinbrot. Grunur leikur á að ölvun hafi verið í spilinu þegar ósættið kom upp.

Nágrannar gerðu lögreglu viðvart og hinn slasaði var fluttur á spítala, þar sem hann gekkst undir aðgerð. Hann mun ekki vera í lífshættu. Tvímenningarnir létu sig hverfa eftir árásina en voru handteknir snemma á laugardagsmorgun og færðir fyrir dómara um kvöldið.

Mennirnir eru allir um og yfir þrítugt. Þeir hafa dvalið hér og unnið um alllangt skeið.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×