Lífið

Fremsti handboltamaður landsins gefur út borðspil

Ólafur segir Ævintýralandið vera kærkomið tæki fyrir fullorðna fólkið til að kynnast heimi barnsins og hvernig það hugsi. Sjálfur segist leikmaðurinn vilja segja börnunum sínum sögur sem þau taki sjálf þátt í.Fréttablaðið/GVA
Ólafur segir Ævintýralandið vera kærkomið tæki fyrir fullorðna fólkið til að kynnast heimi barnsins og hvernig það hugsi. Sjálfur segist leikmaðurinn vilja segja börnunum sínum sögur sem þau taki sjálf þátt í.Fréttablaðið/GVA
„Hugmyndafræði höfundar spilsins og mín skarast á mjög mörgum sviðum,“ segir Ólafur Stefánsson, einn fremsti íþróttamaður landsins, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður AG í Kaupmannahöfn.

Ólafur er staddur hér á landi við að kynna nýtt borðspil, Ævintýralandið, sem hann hefur tekið virkan þátt í að skapa. Eins og fyrir fram mátti búast við er spilið ekki hefðbundið með teningum, peningum og spilaköllum, heldur byggir það á því að virkja sköpunarkraft barna. „Barnið er miðpunkturinn en ekki spilið sjálft,“ segir Ólafur.

Einvalalið kemur að Ævintýralandinu; höfundar þess eru hjónin María Huld Pétursdóttir og Rúnar Þór Þórarinsson, en hann samdi meðal annars spunaspilin Askur Yggdrasils og Fræknir ferðalangar. Rúnar var þar að auki leikjahönnuður hjá CCP og meðal annarra sem koma að útgáfu spilsins er Reynir Harðarson, sem stofnaði einmitt CCP á sínum tíma. Teikningar leika stórt hlutverk í leiknum, en þær eru unnar af CCP-teiknurunum Birni Birki Eiríkssyni og Kára Gunnarssyni auk Brians Pilkington, en grafísk hönnun var í höndunum á Zetor. „Rúnar hafði gengið með þessa hugmynd í maganum í dágóðan tíma en ekki gefið sér tíma vegna anna hjá CCP. Svo hætti hann þar og keyrði spilið í gegn. Sem er ótrúlegavirðingarvert.“

Ævintýralandið er þykjustuleikur þar sem skáldskapur og frásagnargleði ráða ríkjum, eða eins og Ólafur útskýrir: „Spilið er heimur barnsins sem við fullorðna fólkið fáum að kynnast ef við gefum okkur tíma. Sem er síðan önnur saga.“ Ólafur bætir því við að hann hafi uppgötvað að það búi einhver leyndardómur í barninu sem við, fullorðna fólkið, skemmum alltaf með hroka, vitleysu, græðgi og tímaleysi. „Ég vil grafa ofan í það hvernig þau hugsa og þetta spil hjálpar mér við það, að skilja hvernigbörnin mín hugsa og komast nærri leyndardómi þeirra.“

Leikmaðurinn, sem er þekktur fyrir að fara ótroðnar slóðir í leik sínum og hugsun, segir jafnframt að spilið hafi breytt viðhorfi hans til þess hvernig eigi að segja börnum sögur. „Áður sagði ég börnunum mínum sögur frá A til B, því miður, ég var bara ekki lengra á veg kominn. Í dag finnst mér það hins vegar alls ekki málið heldur er það miklu frekar að láta barnið taka þátt í sögunni, geta haft áhrif á hana og upplifa því þá meðtekur barnið söguna miklu, miklu betur.“ Hægt er að kynna sér leikreglur spilsins á Facebook-síðu þess og YouTube. freyrgigja@frettabladid.is


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.