Fótbolti

Lúka Kostic, Salih Heimir og Mihajlo Bibercic

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/Anton
„Þetta var erfitt ferðalag í gær og kannski eru menn álíka þungir og Mihajlo Bibercic núna en menn verða flottir á æfingu seinni partinn.“ Blaðamaður brosti við þetta svar Alfreðs Finnbogasonar sem gat sjálfur ekki leynt glottinu sem færðist yfir andlit hans. Greinilegt var að Alfreð var þar með að fara eftir settum reglum sektarsjóðs U-21 landsliðsins um að nefna ákveðna menn á nöfn í viðtölum við okkur fjölmiðlamenn í Álaborg í gær.

Eftir því sem fleiri viðmælendur komu í viðtal komu hin nöfnin fljótlega í ljós. „Fyrsti leikurinn er mikilvægur en auðvitað væri gaman að klína honum upp í sammarann gegn Dönum eins og Mihajlo Bibercic gerði hérna í denn en við sjáum til hvernig fer,“ sagði Skagamaðurinn Arnór Smárason eftir að hann var spurður hvort hann hlakkaði til að leika gegn danska landsliðinu, þar sem hann væri nú einu sinni að spila með dönsku félagsliði.

Svo var komið að Jóhanni Berg sem fór ekkert sérstaklega fínar leiðir að því að nefna sinn mann á nafn. „Við höfum ekki áhyggjur og erum bara Salih Heimir yfir þessu.“

Þriðja nafnið sem átti að nefna var Lúka Kostic, fyrrum þjálfari U-21 landsliðsins. Haraldi Björnssyni tókst meira að segja að gera það og hafa nafn hans í eðlilegu samhengi.

„Að þessu hefur maður verið að vinna lengi. Við komumst ekki svona langt þegar við vorum hjá Luka [Kostic] en núna hefur allt gengið upp,“ sagði Haraldur.

Fimmti og síðasti viðmælandi minn klikkaði þó á þessu. Öllu verra er að þarna var á ferð sjálfur landsliðfyrirliðinn og einn aðalmannanna í sektarnefnd landsliðsins. Blaðamaður var vitaskuld löngu búinn að átta sig á hvernig í pottinn væri búið og benti Bjarna á yfirsjónina. „Nei, ég trúi þessu ekki,“ sagði fyrirliðinn þá og gróf andlitið í lúkurnar.

Sektir eins og þessar eru þekktar í íþróttaliðum og menn eru vitaskuld sektaðir fyrir annað en framkomu í fjölmiðlum. En nú verða ný nöfn eða önnur orð fundin fyrir okkur fjölmiðlamennina og þessum þremur knattspyrnuhetjum fyrrum Júgóslavíu á Íslandi þökkuð góð störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×