Fótbolti

Ummæli Blatter um kynþáttaníð vekja mikla reiði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. Nordic Photos / Getty Images
Sepp Blatter, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, sagði í viðtali við CNN-sjónvarpsstöðina að kynþáttaníð væri ekki til staðar í knattspyrnu. Ummælunum hefur verið tekið af mikilli reiði víða um heim en sjálfur hefur hann reynt að draga úr þeim.

Blatter var spurður í viðtalinu hvort að kynþáttaníð væri vandamál í knattspyrnuheiminum.

„Því myndi ég neita. Kynþáttaníð á sér ekki stað. Kannski gerist það í samskiptum leikmanna að eitthvað sé sagt eða gert sem ekki er rétt," svaraði Blatter og hélt áfram:

„Sá sem verður fyrir áhrifum af þessu verður að hafa í huga að þetta er leikur. Við erum í leik og í lok hans tökumst við í hendur. Svona lagað getur átt sér stað, vegna þess að við höfum lagt svo mikið á okkur í baráttunni gegn kynþáttaníði og mismunun."

„Ég held að allur heimurinn sé meðvitaður um átak okkar gegn kynþáttaníði og mismunun. Og stundum eru röng orð látin falla á vellinum. En svo klárast leikurinn og maður fær tækifæri í næsta leik til að haga sér betur."

Það eru þessi ummæli sem hafa vakið gríðarlega mikla reiði hjá einstaklingum tengdum knattspyrnu, sérstaklega í Englandi þar sem hin ýmsu mál tengd kynþáttaníði hafa komið upp í haust.

„Segðu mér að ég hafi eitthvað misskilið þessi ummæli frá Blatter. Ef ekki þá koma þau mér algerlega í opna skjöldu," skrifaði Rio Ferdinand, leikmaður Manchester United, á Twitter-síðuna sína. Hann er einnig bróðir Anton Ferdinand hjá QPR sem hefur sakað John Terry, fyrirliða Chelsea og enska landsliðins, um að hafa beitt sig kynþáttaníði í leik liðanna í síðasta mánuði.

Gordon Taylor, formaður leikmannasamtakanna í Englandi, segir að Blatter verði að segja af sér og í sama streng tekur Chris Kamara, sérfræðingur hjá Sky Sports. „Ég bara trúði því ekki hvað Blatter sagði," sagði Taylor.

Blatter var fljótur að birta yfirlýsingu á heimasíðu FIFA þar sem hann reynir að draga úr ummælum sínum. Þar segir hann hafa persónulega leitt baráttuna gegn kynþáttaníði og mismunum í knattspyrnuheiminum.

„Ég veit líka að kynþáttaníð á sér stað í knattspyrnunni, því miður. Ég veit að þetta er stórt vandamál í okkar samfélagi sem hefur áhrif á íþróttir," segir í yfirlýsingunni.

„Ummæli mín voru misskilin. Það sem ég vildi segja var að knattspyrnumenn eiga sínar baráttur við andstæðinga í sínum leikjum. Og stundum er eitthvað gert sem er rangt. En undir venjulegum kringumstæðum biður mann andstæðinginn afsökunar á því í lok leiksins og menn takast í hendur. Þegar leikurinn er búinn, er þetta búið."

„Allir þeir sem hafa spilað knattspyrnu, eða tekið þátt í leik í hvaða íþrótt sem er, vita þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×