Fótbolti

Eggert: Þurfum að bæta fyrirgjafirnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson segir að strákarnir í U-21 landsliðinu ætli ekki að dvelja lengi við leikinn gegn Hvíta-Rússlandi í gær. Leikurinn tapaðist, 2-0.

„Við erum staðráðnir í því að rífa okkur upp. Við eigum eftir að skoða leikinn betur í dag en eftir það ætlum við að setja það til hliðar og hugsa bara um næsta leik," sagði Eggert en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Hann segir að liðið þurfi að gera betur í að koma boltum inn á teig og þjónusta Kolbein betur.

„Okkur fannst við ekki vera alveg að ná að nógu mörgum fyrirgjöfum inn í teig fyrir Kolbein og er það klárlega eitthvað sem við þurfum að bæta. Ef það tekst þá verður Kolli mættur á hinn endann."

„Varnarleikur Hvít-Rússa kom okkur ekki á óvart. Fyrri hálfleikurinn var mjög bragðdaufur og kannski voru bæði lið svolítið varkár. Þeir lágu vissulega mikið til baka en okkur tókst að opna þá tvisvar og vorum virkilega óheppnir að ná ekki að setja hann. En svona er þetta bara."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×