Innlent

Þrír íþróttaþjálfarar reknir vegna kynferðisbrota í starfi

Þrjú kynferðisbrotamál hafa komið inn á borð forsvarsmanna Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) á síðustu þremur árum. Þjálfararnir áreittu allir nemendur sína kynferðislega og var vikið úr starfi fyrir vikið.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tengjast málin Sundfélagi Hafnarfjarðar (SH), Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar og Karatefélagi Hafnarfjarðar.

Yfirsundþjálfari hjá SH, maður af erlendu bergi brotinn, var árið 2008 sakaður um að áreita nemanda sinn, 17 ára stúlku. Málið fór inn á borð lögreglu og barnaverndaryfirvalda og var manninum sagt upp störfum hjá Sundfélaginu.

Þjálfari í Karatefélagi Hafnarfjarðar var sakaður um að hafa áreitt ungan nemanda sinn á grófan hátt í langan tíma þegar hún var um 14 ára. Samkvæmt upplýsingum blaðsins var maðurinn aldrei kærður.

Þriðja tilfellið var hjá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar árin 2006 og 2007. Þjálfari í félaginu áreitti á annan tug stúlkna og kvenna yfir langt tímabil. Tvær 14 ára stúlkur kærðu manninn, en málið var látið niður falla. Þjálfarinn, sem var af erlendu bergi brotinn, var að lokum rekinn úr félaginu. Ágústa Hera Birgisdóttir, formaður Hnefaleikafélags Hafnarfjarðar, segir að á endanum hafi komið í ljós að maðurinn hafði áreitt fleiri stúlkur hjá öðrum félögum þar sem hann starfaði.

„Það versta sem hægt er að gera varðandi svona mál er að þagga þau niður,“ segir Ágústa. „Það kom ekkert annað til greina en að láta hann fara. Það var annað hvort hann eða félagið yrði lagt niður.“

Hafin er vinna hjá forsvarsmönnum ÍBH vegna svona mála. Félagið hefur sett siðareglur og segir Elísabet Ólafsdóttir framkvæmdastjóri að vinna við reglur um meðferð kynferðisbrota innan íþróttafélaga hefjist með haustinu.

„Á þessum þremur árum hafa þrjú mál komið upp, en þau er örugglega miklu fleiri sem við vitum ekki af,“ segir Elísabet og segist fagna því að þolendur stígi fram og tjái sig. „Við viljum hvetja börn og foreldra til að koma og tjá sig til að hafa hlutina í lagi. Það er allra hagur.“

- svAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.