Hljómsveitin Of Monsters and Men hefur gert útgáfusamning við Records Records. Upptökur á fyrstu plötunni hefjast í lok mars.
„Ég er mjög ánægður. Ég hef fulla trú á þessu bandi," segir Haraldur Leví Gunnarsson hjá Record Records sem hefur gert útgáfusamning við hljómsveitina Of Monsters and Men.
Sveitin, sem spilar huggulegt þjóðlagapopp, vann Músíktilraunir í fyrra og hefur síðan verið að semja lög á sína fyrstu plötu. Upptökur hefjast í lok mars undir stjórn Arons Þórs Arnarssonar í Stúdíó Sýrlandi í Vatnagörðum og verður platan mestmegnis tekin upp lifandi. Aron Þór hefur unnið með flytjendum á borð við Gus Gus, Leaves og Trabant og er því reynslumikill í þessum upptökubransa.
„Þetta er að mínu mati ein áhugaverðasta hljómsveitin á Íslandi í dag. Ég hef fulla trú á að þau muni „meika" það annars staðar en hér," segir Haraldur Leví um nýjustu skjólstæðinga sína. Spurður hvort hann hafi gengið lengi á eftir sveitinni segir hann: „Við erum búin að vera í samræðum í smá tíma en vorum að ganga frá þessu núna. Það var ekki ástæða til að ganga frá þessu fyrr því þau voru ekki tilbúin með plötu."
Söngkonan Nanna Bryndís Hilmarsdóttir er að sjálfsögðu ánægð með stöðu mála. „Það er gaman að þetta skuli vera að gerast," segir hún og viðurkennir að draumur frá því í barnæsku hafi ræst með útgáfusamningnum.
Of Monsters and Men fékk hljóðverstíma í verðlaun fyrir sigurinn í Músíktilraunum en þeir hafa þegar verið notaðir. „Við tókum upp lítinn kynningardisk sem við dreifðum á Airwaves-hátíðinni," segir Nannna og er mjög spennt fyrir væntanlegum upptökum. Platan er væntanleg í júní og þangað til verður hljómsveitin í pásu frá tónleikahaldi til að geta einbeitt sér enn frekar að lagasmíðum.
freyr@frettabladid.is
Lífið