Íslenski boltinn

Umfjöllun: Brynjar Gauti skemmdi fyrir félögum sínum

Henry Birgir Gunnarsson á Hásteinsvelli skrifar
Mynd//Daníel
Ótrúlegt dómgreindarleysi varnarmannsins Brynjars Gauta Guðjónssonar hjá ÍBV í kvöld varð liði hans dýrt. Brynjar Gauti lét reka sig af velli eftir aðeins sextán mínútna leik í stórleiknum gegn KR og eftir það var á brattann að sækja hjá ÍBV sem þurfti sárlega að fá þrjú stig úr leiknum.

Brynjar Gauti sparkaði þá í Grétar Sigfinn Sigurðsson sem lá á vellinum og boltinn farinn. Hreint ótrúlegt að fylgjast með svona agaleysi þegar Íslandsmótið er undir. Eftir þetta atvik urðu Eyjamenn að stokka spilin upp á nýtt.

KR-ingar voru miklu betri framan af leik og Kjartan Henry Finnbogason fékk fullt af færum til að koma KR-liðinu yfir en Eyjavörnin hélt velli og marki sínu hreinu fram að hálfleik.

Aaron Spear kom síðan tíu Eyjamönnum í 1-0 á 27. mínútu með marki af stuttu færi eftir flotta sókn. Tryggvi Guðmundsson spilaði Tony Mawejje frían á vinstri vængnum og Mawejje átti góða fyrirgjöf inn á markteiginn þar sem að Spear var frekastur á boltann.

KR-ingar voru mun meira með boltann í upphafi seinni hálfleiks en það voru Eyjamenn sem ógnuðu síst minna með skyndisóknum sínum. KR-ingar náðu þó loksins að skora um miðjan hálfleikinn.

Kjartan Henry Finnbogason skoraði þá með flottum skalla á 68. mínútu eftir glæsilega fyrirgjöf frá bakverðinum Dofra Snorrasyni.

KR-ingar sköpuðu sér ekki mikið eftir jöfnunarmarkið og leikurinn var í járnum það sem eftir var leiks. Liðin sættustu því á jafntefli og spennan er því áfram mikil á toppi deildarinnar. KR-ingar eiga enn leik inni og eru því í betri stöðu en ÍBV.

Eyjamenn vörðust fimlega í þessum leik og vinnuframlag leikmanna til mikillar fyrirmyndar. Þeir voru ekki fjarri því að klára KR með aðeins tíu leikmenn á vellinum sem hefði verið stórkostlegt afrek. ÍBV gaf afar fá færi á sér í síðari hálfleik en KR átti jöfnunarmarkið skilið enda með gríðarlega yfirburði.

Fyrri hálfleikur samt miklu betri hjá Vesturbæingum. Það vantaði sárlega meiri kraft og hraða í sóknarleikinn í síðari hálfleik. KR gengur því enn illa að klára leikina sína og fyrir vikið verður spennan í lokaumferðum Íslandsmótsins mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×