Enski boltinn

Emmanuel og Emmanuel á leið frá Arsenal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eboue brýtur á Lucas í viðbótartíma á Emirates á síðustu leiktíð.
Eboue brýtur á Lucas í viðbótartíma á Emirates á síðustu leiktíð. Nordic Photos/AFP
Emmanuel Eboue er á leið til tyrkneska knattspyrnuliðsins Galatasaray fyrir fjórar milljónir punda ef marka má breska fjölmiðla. Auk Eboue er nafni hans Emmanuel-Thomas orðaður við sölu til Ipswich.

Eboue fór ekki með Arsenal í æfingaferðina til Asíu og voru meiðsli hans á kálfa sögð ástæðan. Fílbeinstrendingurinn var einnig skilinn eftir í síðustu viku þegar liðið hélt til Þýskalands og talið að tækifærið hafi verið nýtt og gengið frá samningum við Galatasaray.

Eboue er vinsæll meðal leikmanna Arsenal og náði að koma sér í náðina á nýjan leik hjá stuðningsmönnum félagsins eftir heldur dapran tíma með liðinu. Klaufalegt brot hans í viðbótartíma gegn Liverpool á síðustu leiktíð virðist þó hafa haft mikil áhrif á álit Wenger á kappanum.

Arsene Wenger virðist þurfa að losa sig við miðlungsleikmenn liðsins til þess að fjármagna kaup á nýjum leikmönnum. Gael Clichy var nýverið seldur til Manchester City og Brasilíumaðurinn Denilson lánaður til Sao Paulo í heimalandinu. Þá er Nicklas Bendtner orðaður við brottför frá félaginu líkt og markvörðurinn Manuel Almunia.

Einnig er hinn tvítugi Emmanuel-Thomas orðaður við Ipswich fyrir eina milljón punda þannig að það safnast í kaupsjóð Wenger hjá Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×