Innlent

Bjarni Benediktsson fær kaldar kveðjur á Facebook

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson styður Icesave frumvarpið eins og það lítur út núna. Mynd/ Pjetur.
Bjarni Benediktsson styður Icesave frumvarpið eins og það lítur út núna. Mynd/ Pjetur.
Miklar líkur eru á því að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins muni klofna í afstöðu sinni til Icesavesamningsins, samkvæmt heimildum Vísis. Málið hefur verið gríðarlega mikið rætt í þingflokknum á undanförnum dögum en ekki fengist eining um það. Þó fór svo í dag að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd skiluðu nefndaráliti þar sem lýst er yfir stuðningi við samningsdrögin.

Bjarni Benediktsson fjallar um málið á fésbókarsíðu sinni í dag. Þar minnir hann á að þjóðin reis upp gegn Icesave samningi ríkisstjórnarinnar í fyrra og felldi hann með 98% greiddra atkvæða. Það muni ekki gleymast hverjir hafi verið tilbúnir til að samþykkja þá afarkosti og taka áhættu upp á 500 milljarða. „Það er himinn og haf á milli þess samnings og nýja samkomulagsins. Ég hef ávallt stutt viðræður um lausn á málinu og tel rétt að ganga frá því eins og það liggur nú fyrir," segir Bjarni á fésbókarsíðu sinni.

Bjarni færa heldur kaldar kveðjur á athugasemdakerfinu við þessari stöðufærslu sinni.

„Þetta eru svik við þjóðina," segir einn vinur Bjarna.

„Nei Bjarni ég er ekki til í það að borga annarra manna skuldir, punktur og pasta. Þú getur gert það sjálfur," segir annar.

„Hefur verið haldinn einhver almennur fundur í flokknum um þessa afstöðu? Þessi afstaða er ekki í takt við vilja meirihluta flokksmanna, leyfi ég mér að fullyrða. Það er algerlega óskiljanlegt að flokkurinn skuli bregðast í þessu mikilvæga máli. Hverju er nú að treysta í þessu þjóðfélagi?" spyr enn einn vinurinn.

Það eru hins vegar ekki allir sem eru ósáttir við ákvörðunina.

„Ánægður með þig, Bjarni," segir einn fésbókarvinurinn.

„Skynsamleg ákvörðun og ég styð hana," segir annar.

Alltént er víst að margir hafa skoðanir á málefninu því Bjarni virðist ekki hafa fengið eins mikill viðbrögð við nokkurri annarri stöðuuppfærslu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×