Fótbolti

Fjölþjóðlegur leikmannahópur svissneska liðsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Xhaka á ættir að rekja til Albaníu
Xhaka á ættir að rekja til Albaníu Mynd/Getty Images
Níu af 23 leikmönnum U-21 landsliðs Sviss eiga ættir að rekja til annarra landa en þess sem þeir spila nú fyrir á Evrópumeistaramótinu í Danmörku.

Það telst þó líklega ekki óvenjulegt enda Sviss afar fjölþjóðlegt samfélag. Alls eru fjögur opinber tungumál í landinu og þjóðarbrotin þar að auki mörg.

Til gamans tók Vísir saman hvernig leikmannahópurinn er samansettur og hvert leikmennirnir eiga ættir að rekja. Niðurstaðan er sú að níu leikmenn eru annað hvort fæddir í öðrum löndum eða eiga foreldra annars staðar frá en Sviss.

Flestir eiga ættir að rekja til Albaníu eða fjórir talsins. Þeirra á meðal eru tvær stærstu stjörnur liðsins, þeir Xherdan Shaqiri og Granit Xhaka.

Alls koma sex frá löndum á Balkansskaganum en hinir þrír eru frá Þýskalandi, Nígeríu og Túnis.

Leikmennirnir:

Timm Klose, varnamaður. Fæddur í Þýskalandi en á svissneska móður og flutti til Basel fyrir sex árum síðan.

Daniel Pavlovic, varnamaður. Fæddur í Sviss en á króatíska foreldra.

Pajtim Kasami, miðjumaður. Fæddur í Makedóníu en foreldrar hans eru frá Albaníu. Flutti ungur til Sviss.

Xherdan Shaqiri, miðjumaður. Fæddur í Kósóvó en fjölskylda hans er upphaflega frá Albaníu. Flutti sem barn til Basel í Sviss.

Granit Xhaka, miðjumaður. Fæddur í fyrrum Júgóslavíu, á ættir að rekja til Albaníu og fluttur ungur til Sviss.

Amir Abrashi, miðjumaður. Fæddur í Serbíu.

Admir Mehmedi, sóknarmaður. Fæddur í fyrrum Júgóslavíu en á ættir að rekja til Albaníu.

Innocent Emeghara, sóknarmaður. Fæddur í Nígeríu.

Nassim Ben Khalifa, sóknarmaður. Fæddur í Sviss en foreldrar hans eru frá Túnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×