Innlent

Trúnaði af símtali Davíðs og Kings verði aflétt

Kristján Þór Júlíusson þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Kristján Þór Júlíusson þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að hann hefði óskað eftir því að Fjárlaganefndin fari fram á að trúnaði af samtali Davíðs Oddssonar, fyrrverandi Seðlabankastjóra og Mervyn Kings, bankastjóra Englandsbanka, verði aflétt.

Símtalið var lesið upp fyrir fulltrúa fjárlaganefndar í gær en Davíð hefur haldið því fram að bankastjórinn hafi sagt að Íslendingar þyrftu ekki að greiða Icesave skuldina. Sjálfur hefur breski bankastjórinn sagt að hann vissi ekki að símtal hans við Davíð væri hljóðritað.

Kristján sagði að miklar umræður hefðu sprottið upp í fjölmiðlum og í þinginu um hvað fór þeim á milli. Hann líkti málinu við Icesave málið sem var trúnaðarmál í upphafi en það hafi svo verið gert opinbert. Það sama ætti að gilda um samtal bankastjóranna.

Kristján spurði á Alþingi í dag hvort að til væru reglur sem færu með trúnaðarupplýsingar. „Þetta minnir á það þegar við byrjuðum umræðurnar um Icesave, þá var fullur trúnaður og svo mikill á gögnum málsins að þetta var lokað af inni í herbergi og þangað inn þurfti talnalás og lesa þurfti gögnin undir öryggisvörslur. Sem betur fer var þessu létt af."

„En í ljósi þessarar umræðu vil ég upplýsa um það að ég óskaði eftir því að Fjárlaganefndin fari fram á það að trúnaði af þessu samtali yrði aflétt þannig að menn losni undan þeirri pressu sem verið hefur á þeim allt frá því að fundi lauk í gærkvöldi," sagði Kristján.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×