Enski boltinn

Pardew ber engan kala til West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alan Pardew, stjóri West Ham.
Alan Pardew, stjóri West Ham. Nordic Photos / Getty Images

Alan Pardew mun í kvöld stýra Newcastle gegn sínu gamla félagi, West Ham, en þaðan var hann rekinn frá þáverandi íslenskum eigendum félagsins.

Björgólfur Guðmundsson keypti West Ham árið 2006 í samstarfi við Eggert Magnússon sem var í forsvari fyrir rekstur félagsins fyrst um sinn. Hann var við stjórnvölinn þegar að Pardew var rekinn eftir slæmt gengi.

„Ég er ekki alltaf að stagast á þessu. Ég naut þess að vera þarna og þetta var var frábær reynsla. Ég upplifði margt skemmtilegt á þeim þremur sem ég var þarna," sagði Pardew við enska fjölmiðla.

„En þetta var mjög erfitt í upphafi og fékk ég mjög erfiðan hóp leikmanna í hendurnar sem vildi ekki spila fyrir félagið."

„En mér tókst að komast í gegnum það og ég náði að byggja upp virkilega gott lið. Þegar ég fór var liðið betra en þegar ég tók við því. Ég var stoltur af mínum afrekum hjá West Ham og ber engan kala í garð félagsins," bætti Pardew við en hann stýrði liðinu meðal annars í úrslit ensku bikarkeppninnar.

„Ég trúi því í raun og veru að ég hefði aldrei misst starfið mitt hefði Dean Ashton ekki meiðst. Hann var einn aðalsóknarmaður enska landsliðsins á þessum tíma. Andy Carroll [leikmaður Newcastle] minnir mig á hann. Hann hefur sömu löngun til að vinna sér sess í enska landsliðinu."

„En eigendur vilja ná sínu fram og því kom mér það ekki á óvart að ég var látinn yfirgefa félagið stuttu eftir að íslensku eigendurnir tóku við West Ham."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×