Fótbolti

Monaco féll úr frönsku úrvalsdeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Monaco voru heldur niðurlútir í leikslok í gær.
Leikmenn Monaco voru heldur niðurlútir í leikslok í gær. Nordic Photos / AFP
AS Monaco, fyrrum félag Eiðs Smára Guðjohnsen, féll í gær úr frönsku úrvalsdeildinni eftir að liðið tapaði fyrir Lyon, 2-0, í lokaumferðinni um helgina.

Þetta er í fyrsta sinn í 35 ár sem félagið fellur í B-deildina en félagið komst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2004 þar sem liðið tapaði fyrir Porto, sem þá var stýrt af Jose Mourinho.

Sigur hefði bjargað Monaco frá falli en Lyon tryggði sér með sigrinum þriðja sæti deildarinnar og þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Lille var fyrir nokkru búið að tryggja sér franska meistaratitilinn en Marseille varð í öðru sæti.

Eiður Smári var keyptur til Monaco frá Barcelona haustið 2009 en náði sér aldrei á strik með félaginu. Hann var lánaður til Tottenham þegar tímabilið var hálfnað og síðan þá hefur hann verið í Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×